Lyngfellsdalur

Í botni Lyngfellsdals er flöt sem kölluð er Ræningjaflöt. Þar er talið að ræningjarnir hafi þurrkað vopn sín og klæði áður en þeir héldu til byggða. Ræningjarnir sem voru um 300 fóru um í þremur hópum um alla eyjuna þannig að erfitt var fyrir Vestmannaeyingama að komast undan.

Ofanleiti

Ofanleiti var annað af tveimur prestsetrum í Vestmannaeyjum en sóknirnar voru tvær, Ofanleitissókn og Kirkjubæjarsókn og prestarnir tveir. Landakirkja var reist á Löndum 1573 en þá urðu kirkjuhúsin á Ofanleiti og Kirkjubæ að bænhúsum.

Séra Ólafur Egilsson var sóknarprestur í Ofanleiti þegar Tyrkjaránið átti sér stað. Kona hans var Ástríður Þorsteinsdóttir en hún var systir hins sóknarprestsins sér Jóns Þorsteinssonar í Kirkjubæ. Þegar ræningjarnir komu að Ofanleiti voru hjónin í bænum ásamt ungu barni þeirra en Ástríður var komin að því að eiga. Egill sonur þeirra sem þá var ellefu ára flýði en kom aftur til að sjá hvernig foreldrum sínum reiddi af.  Öll fjölskyldan svo og tvö fósturbörn voru því handtekin og flutt í ánauð.

Eftir að víkingaskipin höfðu siglt frá eyjunum voru líkin borin að Ofanleiti og þau búin til greftrunar. Bænhúsunum á Ofanleiti hafði verið hlíft.

Hundraðmannahellir

Þegar Vestmannaeyingar gerðu sér grein fyrir því að skipin þrjú sem sigldu að eyjunum fóru ekki með friði hlupu heimamenn til og földu sig í hellum og skútum sem víða er að finna á eyjunni. Hundraðmannahellir er syðst í Herjólfsdal við teiginn á 12.holu á golfvelli Vestmannaeyinga. Sagan segir að um 100 manns hafi falið sig í hellinum en af því dregur hellirinn nafn sitt. En hópurinn fannst því hundur var að snuðra fyrir utan. Í dag verður að skríða nokkurn spöl til að komast inn í aðalhvelfinguna en þar getur meðalmaður næstum staðið uppréttur.

Fiskhellar

Háin er fjall sem stendur austan við Herjólfsdal. Fyrr á öldum voru byggð fiskibyrgi á syllum og snösum út um allt berg. Fiskur var fluttur að berginu og hann dreginn upp í byrgin. Ástæðan var sú að það leikur alltaf vindur um bergið og lítil hætta á að fiskurinn blotnaði og þá losnuðu menn alveg við flugu þegar komið var upp í 10 metra hæð.

Fiskhellar eru hellar sunnan og vestan megin í Hánni. Þegar Tyrkirnir komu flýði margt fólk í hella og skúta í Fiskhellum.

Ofarlega í berginu er Þorlaugargerðishilla og var farið með konur og börn þangað og þau látin síga niður. Talið er líklegt að þeir sem þangað komust hafi komist undan í Tyrkjaráninu.

Tyrkirnir klifruðu eftir fólkinu í neðri byrgjunum en skutu á þá sem þeir náðu ekki en fólkið undraðist mjög fimi ræningjanna við að klifra. Sagan segir að pils kvennanna hafi lafað fram af syllunum og að 18 kúlnagöt hafi verið á pilsi einnar konunnar.

Kirkjubær

Kirkjan á Kirkjubæ var sennilega reist á 13.öld. Á Kirkjubæ bjó sóknarpresturinn séra Jón Þorsteinsson ásamt Margréti Jónsdóttur konu sinni og tveimur börnum á unglingsaldri. Séra Jón flýði ásamt heimilisfólki sínu og fleirum í Rauðhelli og faldi sig þar. Einn mannanna sem var í felum gægðist út um hellismunnann og fannst þá allt fólkið. Séra Jón var hálshöggvinn en ræningjarnir handtóku aðra sem í hellinum voru, samtals 13 manns. Margrét og börnin voru flutt til Alsír og kom ekkert þeirra aftur.

Dauði Jóns var talinn til píslarvættisdauða og í heimildum er hann nefndur Jón píslarvottur. Á grafreit hans var legsteinn sem lengi vel lá í gleymsku. Árið 1924 fannst legsteinn séra Jóns Þorsteinssonar. Gerð var eftirmynd af steininum en hann stendur nú í Kirkjubæjarhrauni þar sem var áður stóð kirkjan á Kirkjubæ.

Sængurkonusteinn

Sagan segir að kona hafi alið barn við stein nokkurn norðvestur af Helgafelli. Tveir ræningjar komu þar að og vildi annar þeirra drepa konuna en hinn skar bút af skykkju sinni og gaf konunni til að sveipa um barnið. Hlífðu þeir því móður og barni og hefur steinninn verið nefndur Sængurkonusteinn.

Stakkagerði

Á dögum Tyrkjaránsins var tvíbýli á Stakkagerði. Á öðrum bænum bjó Jón Oddsson ásamt konu sinni Önnu Jasparsdóttur en á hinum bænum Eyjólfur Sölmundarson og Guðríður Símonardóttir kona hans en þau áttu soninn Sölmund sem þá var fjögurra vetra. Húsfreyjurnar voru teknar hernámi ásamt Sölmundi syni Guðríðar.

Skansinn og Dönskuhúsin

Skömmu eftir 1400 urðu Vestmannaeyjar einkaeign Noregskonungs og síðar Danakonungs og voru það allt til 1874.  Englendingar hófu veiðar hér á Íslandsmiðum skömmu eftir 1400 en árið 1490 náðust samningar milli Dana og Englendinga um verslun og veiðar við Ísland. Um miðja 16.öld hafði þó Englendingum að mestu verið bolað burt. Danakonungar litu á Vestmannaeyjar sem séreign sína og voru Eyjamenn allþjakaðir af konungsveldinu með útgerð konungsskipa og verslunareinokuninni. Vestmannaeyjajarðirnar 48, úthagi og allar nytjar voru í eigu konungs. Bændur í Vetmannaeyjum voru, auk þess að borga skatta til konungs, skyldugir til að róa á konungsskipunum sem konungur gerði út og urðu sjálfir að taka fiskigarða á leigu til þess að herða aflann. Um aldamótin 1600 áttu Vestmannaeyingar engin vertíðarskipa nema nokkra smábáta.

Varnavirkin á Skansinum voru byggð 1586 til að verja verslun Danakonungs.  Skansinn var miðpunktur mannlífs og athafna í Vestmannaeyjum.

 

Ræningjatangi

Snemma morguns mánudaginn 16.júlí 1627 sáu Vestmannaeyingar þrjú skip nálgast eyjarnar. Byr var óhagstæður og gekk því siglingin hægt. Í fyrstu var talið að um dönsk herskip væri að ræða þar sem danski fáninn blakti við hún. En Eyjamenn voru tortryggnir því vitneskja um rán víkinga í Grindavík hafði borist þeim til eyrna. Danski kaupmaðurinn Lárits Bagge kallaði menn að dönsku húsunum með öll tiltæk vopn þar á meðal handbyssur og fallbyssur.

Þegar leið á daginn nálguðust skipin þrjú eyjarnar. Þau sigldu suður með eynni að Kópavík en þar eru snarbrattar brekkur og klettar og Eyjamenn voru þar til varnar. Skipin sigldu því áfram suður fyrir Litlahöfða og tóku land við Brimurð við tanga sem nefndur hefur verið Ræningjatangi. 

 

Sögukort Tyrkjaveldi Tyrkjaveldi TyrkjaveldiTyrkjaveldiTyrkjaveldiTyrkjaveldiKenningar kirkjunnar um Tyrki Kenningar kirkjunnar um Tyrki Stakkagerði Sængurkonusteinn Kirkjubær Lyngfellsdalur Anna Jasparsdóttir Séra Ólafur Egilsson Tyrkjaveldi Kenningar kirkjunnar um Tyrki Ránið í Grindavík og aðförin að Bessastöðum